s-804
| Ófeigur mælti: ' Hvern kýst þú til með þér?' |
s-805
| Gellir segir: ' Egil mun eg kjósa. |
s-806
| Hann er mér næstur.' |
s-807
| Ófeigur segir: ' Heyr á endemi, kýst þann sem verstur er af yðru liði og þykir mér mikið fyrir að fá honum sæmdarhlut og veit eg eigi hvort eg vil það til vinna.' |
s-808
| ' Þú ræður nú,' kvað Gellir. |
s-809
| Ófeigur mælti: ' Viltu þá í ganga málið ef eg kem honum til með þér? Því að sjá mun hann kunna hvort betra er að hafa nokkura sæmd eða enga.' |
s-810
| ' Svo mikið sem mér kaupist í,' segir Gellir,' þá ætla eg að eg muni til hætta.' |
s-811
| Þá mælti Ófeigur: ' Um höfum við Egill talað áður og sýnist honum eigi torveldlegt málið og er hann í kominn. |
s-812
| Nú mun eg gefa ráð til hversu með skal fara. |
s-813
| Flokkar yðrir bandamanna eru mjög allir saman í göngu. |
s-814
| Nú mun það engi maður gruna þó að þið Egill talist við, þá er þið gangið til aftansöngs, slíkt er ykkur líkar.' |
s-815
| Gellir tekur við fénu og er þetta ráðið nú með þeim. |
s-816
| Síðan fer Ófeigur nú í brott og til búðar Egils og hvorki seint né krókótt og eigi bjúgur, segir nú Egli hvar komið er. |
s-817
| Líkar honum nú vel. |
s-818
| Eftir um kveldið ganga menn til aftansöngs og talast þeir Egill og Gellir við og semja þetta í milli sín. |
s-819
| Grunar þetta engi maður. |
s-820
| 10. Nú er frá því sagt að annan dag eftir ganga menn til Lögbergs og var fjölmennt. |
s-821
| Þeir Egill og Gellir safna að sér vinum sínum. |
s-822
| Ófeigur safnaði og með þeim Styrmi og Þórarni. |
s-823
| Og er menn voru komnir til Lögbergs, þeir sem þangað var von, þá kvaddi Ófeigur sér hljóðs og mælti: ' Eg hef verið óhlutdeilinn um mál Odds sonar míns hér til en þó veit eg að nú eru þeir menn hér að mest hafa gengið að þessu máli. |
s-824
| Vil eg fyrst kveðja að þessu máli Hermund þó að þetta hafi með meirum fádæmum upp hafið verið en menn viti dæmi til og svo fram farið og eigi ólíklegt að með því endist. |
s-825
| Nú vil eg þess spyrja hvort nokkur sætt skal koma fyrir málið.' |
s-826
| Hermundur segir: ' Ekki viljum vér taka utan sjálfdæmi.' |
s-827
| Ófeigur mælti: ' Til þess munu menn trautt vita dæmi að einn maður hafi selt átta mönnum sjálfdæmi á einu máli en til þess eru dæmi að einn maður selji einum manni. |
s-828
| Alls þó hefir þetta með meirum fádæmum gengið heldur en hvert annarra þá vil eg bjóða að tveir geri af yðrum flokki.' |
s-829
| Hermundur segir: ' Því viljum vér víst játa og hirðum eigi hverjir tveir gera.' |
s-830
| ' Þá munuð þér unna mér þess,' segir Ófeigur,' að eg hafi þá vegtyllu að eg kjósi af yður bandamönnum þá tvo er eg vil.' |
s-831
| ' Já, já,' segir Hermundur. |
s-832
| Þá mælti Þórarinn: ' Já þú nú því einu í dag er þú iðrast eigi á morgun.' |
s-833
| ' Eigi skal nú aftur mæla,' segir Hermundur. |
s-834
| Nú leitar Ófeigur borgunarmanna og varð það auðvelt því að fjárstaður þótti vís. |
s-835
| Nú takast menn í hendur og handsala þeir fégjöld slík sem þeir vilja gert hafa er Ófeigur nefnir til en bandamenn handsala niðurfall að sökum. |
s-836
| Nú er svo ætlað að bandamenn skulu ganga upp á völlu með flokka sína. |
s-837
| Flokkar þeirra Gellis og Egils ganga báðir saman, setjast niður í einn stað í hvirfing. |
s-838
| En Ófeigur gengur í hringinn, litast um og lyftir kápuhettinum, strýkur handleggina og stendur heldur keikari. |
s-839
| Hann titrar augunum og talaði síðan: ' Þar situr þú, Styrmir, og mun mönnum það undarlegt þykja ef eg læt þig eigi koma í það mál er mig tekur henda því að eg er í þingi með þér og á eg þar til trausts að sjá er þú ert og þú hefir margar góðar gjafar af mér þegið og allar illu launað. |
s-840
| Hyggst mér svo að sem þú hafir um þenna hlut fyrstur manna fjandskap sýnt Oddi syni mínum og valdið mest er málið var upp tekið og vil eg þig frá taka. |
s-841
| ' Þar situr þú, Þórarinn,' segir Ófeigur,' og er víst að eigi mun það hér til bera að eigi hafir þú vit til að dæma um þetta mál en þó hefir þú Oddi til óþurftar lagt í þessari grein og fyrstur manna með Styrmi tekið undir þetta mál og vil eg þig fyrir því frá kjósa. |
s-842
| Þar situr þú, Hermundur, mikill höfðingi, og það ætla eg að þá mundi vel komið þó að undir þig væri vikið málinu en þó hefir engi maður verið jafnæstur síðan þetta hófst og það lýst að þú vildir ósómann lýsa. |
s-843
| Hefir þig og ekki til dregið nema ósómi og ágirni því að þig skortir eigi fé og kýs eg þig frá. |
s-844
| Þar situr þú, Járnskeggi, og skortir þig eigi metnað til að gera um málið og eigi mundi þér illa þykja þó að undir þig kæmi þetta mál. |
s-845
| Og svo var metnaður þinn mikill að þú lést bera merki fyrir þér á Vöðlaþingi sem fyrir konungum en þó skaltu eigi konungur yfir þessu máli vera og kýs eg þig frá.' |
s-846
| Nú litast Ófeigur um og mælti: ' Þar situr þú, Skegg-Broddi, en hvort er það satt að Haraldur konungur Sigurðarson mælti það þá er þú varst með honum að honum þætti þú best til konungs fallinn þeirra manna er út hér eru?' |
s-847
| Broddi svaraði: ' Oft talaði konungur vel til mín en eigi er það ráðið að honum þætti allt sem hann talaði.' |
s-848
| Þá mælti Ófeigur: ' Yfir öðru skaltu konungur en þessu máli og kýs eg þig frá.' |
s-849
| ' Þar situr þú, Gellir,' segir Ófeigur,' og hefir þig ekki dregið til þessa máls nema ein saman fégirni. |
s-850
| Og er það þó nokkur vorkunn er þú ert févani en hefir mikið að ráði. |
s-851
| Nú veit eg eigi, þó að mér þyki allir ills af verðir, nema nokkur verði virðing af að hafa þessu máli því að nú eru fáir eftir en eg nenni eigi að kjósa þá til er áður hefi eg frá vísað. |
s-852
| Og því kýs eg þig til að þú hefir ekki áður að ranglæti kenndur verið. |
s-853
| Þar situr þú, Þorgeir Halldóruson,' segir Ófeigur,' og er það sýnt að það mál hefir aldregi komið undir þig er málskipti liggja við því að þú kannt eigi mál að meta og hefir eigi vit til heldur en uxi eða asni og kýs eg þig frá.' |
s-854
| Þá litast Ófeigur um og varð staka á munni: . |
s-855
| ' Og hefir mér farið sem varginum. |
s-856
| Þeir etast þar til er að halanum kemur og finna eigi fyrr. |
s-857
| Eg hefi átt að velja um marga höfðingja en nú er sá einn eftir er öllum mun þykja ills að von og sannur er að því að meiri er ójafnaðarmaður en hver annarra og eigi hirðir hvað til fjárins vinnur ef hann fær þá heldur en áður. |
s-858
| Og er honum það vorkunn þó að hann hafi hér eigi verið hlutvandur um er sá hefir margur í vafist er áður var réttlátur kallaður og lagt niður dáðina og drengskapinn en tekið upp ranglæti og ágirni. |
s-859
| Nú mun engum það í hug koma að eg muni þann til kjósa er öllum er ills að von því að eigi mun annar hittast slægri í yðru liði en þó mun þar nú niður koma er þó eru allir aðrir frá kjörnir.' |
s-860
| Egill mælti og brosti við: ' Nú mun enn sem oftar að eigi mun virðing fyrir því hér niður koma að aðrir vildu það. |
s-861
| Og er það til, Gellir, að við stöndum upp og göngum í brott og tölum með okkur málið.' |
s-862
| Þeir gera nú svo, ganga í brott þaðan og setjast niður. |
s-863
| Þá mælir Gellir: ' Hvað skulum við hér um tala?' |
s-864
| Egill mælti: ' Það er mitt ráð að gera litla fésekt og veit eg eigi hvað til annars kemur er þó munum við litla vinsæld af hljóta.' |
s-865
| ' Mun eigi fullmikið þó að við gerum þrettán aura óvandaðs fjár?' segir Gellir,' því að málaefni eru með miklum rangindum upp tekin og er því betur er þeir una verr við. |
s-866
| En ekki er eg fús að segja upp gerðina því að mig væntir þess að illa muni hugna.' |
s-867
| ' Ger hvort er þú vilt,' segir Egill,' seg upp sættina eða sit fyrir svörum.' |
s-868
| ' Það kýs eg,' segir Gellir,' að segja upp.' |
s-869
| Nú ganga þeir á fund bandamanna. |
s-870
| Þá mælti Hermundur: ' Stöndum upp og heyrum á ósómann.' |
s-871
| Þá mælti Gellir: ' Ekki munum við síðar vitrari og mun allt til eins koma og er það gerð okkur Egils að gera oss til handa, bandamönnum, þrettán aura silfurs.' |
s-872
| Þá segir Hermundur: ' Hvort skildist mér rétt, sagðir þú þrettán tigi aura silfurs?' |
s-873
| Egill segir: ' Eigi var það Hermundur er þú sætir nú á hlustinni er þú stóðst upp. |
s-874
| Víst þrettán aura og þess fjár er engum sé við tækt óveslum. |
s-875
| Skal þetta gjaldast í skjaldaskriflum og baugabrotum og í öllu því óríflegast fæst til og þér unið verst við.' |
s-876
| Þá mælti Hermundur: ' Svikið hefir þú oss Egill.' |
s-877
| ' Er svo?' segir Egill. |
s-878
| ' Þykist þú svikinn?' |
s-879
| ' Svikinn þykist eg og hefir þú svikið mig.' |
s-880
| Egill segir: ' Það þykir mér vel að eg svíki þann er engum trúir og eigi heldur sjálfum sér og má eg finna sönnur á mínu máli um þetta. |
s-881
| Þú falst fé þitt í svo mikilli þoku að þú ætlaðir, þó að þér skyti því í hug að leita þess, að þú skyldir aldrei finna.' |
s-882
| Hermundur segir: ' Þetta er sem annað það er þú lýgur Egill, það þú sagðir á vetri er þú komst heim ofan þaðan er eg hafði boðið þér heim úr hrakbúinu um jól og varstu því feginn sem von var að. |
s-883
| En er úti voru jólin þá ógladdist þú sem von var og hugðir illt til að fara heim í sultinn en er eg fann það þá bauð eg þér að vera þar með annan mann og þástu það og varst feginn. |
s-884
| En um vorið eftir páska er þú komst heim til Borgar sagðir þú er dáið hefðu fyrir mér þrír tigir klakahrossa og hefðu öll etin verið.' |
s-885
| Egill segir: ' Ekki ætla eg að ofsögur mætti segja frá vanhöldum þínum en annaðhvort ætla eg að etin væru af þeim fá eða engi. |
s-886
| En vita það allir menn að mig og fólk mitt skortir aldrei mat þó að misjafnt sé fjárhagur minn hægur, en þau ein eru kynni heima að þín er þú þarft ekki að taka til orðs á.' |
s-887
| ' Það mundi eg vilja,' segir Hermundur,' að við værum eigi báðir á þingi annað sumar.' |
s-888
| ' Nú mun eg það mæla,' segir Egill,' er eg hugði að eg mundi aldrei tala, að þú lúk heill munni í sundur því að það var mér spáð að eg mundi ellidauður verða en mér þykir því betur er fyrr taka tröll við þér.' |
s-889
| Þá mælti Styrmir: ' Sá segir sannast frá þér Egill er verst segir og þig kallar prettóttan.' |
s-890
| ' Nú fer vel að,' segir Egill,' því betur þykir mér er þú lastar mig meir og þú finnur fleiri sönnur á því og af því að mér var það sagt að þér höfðuð það fyrir ölteiti að þér tókuð yður jafnaðarmenn og tókstu mig til jafnaðarmanns þér. |
s-891
| Nú er það víst,' segir hann,' að þú hefir nokkur stórklæki með þér þau er eigi vita aðrir menn og mun þér kunnigast um þinn hag. |
s-892
| En þó er það ólíkt með okkur, hvortveggi heitir öðrum liði og veiti eg það er eg má og spara eg ekki af en þú rennur þegar svartleggjur koma á loft. |
s-893
| Það er og satt að eg á jafnan óhægt í búi og spara eg við engan mann mat en þú ert matsínkur. |
s-894
| Og er það til marks að þú átt bolla þann er Matsæll heitir og kemur engi sá til garðs að viti hvað í er nema þú einn. |
s-895
| Nú samir mér að hjón mín hafi þá hart er eigi er til en þeim samir verr að svelta hjón sín er ekki skortir og hygg þú að hver sá er.' |
s-896
| Nú þagnar Styrmir. |
s-897
| Þá stendur upp Þórarinn. |
s-898
| Þá mælti Egill: ' Þegi þú Þórarinn og sest niður og legg eigi orð til. |
s-899
| Þeim brigslum mun eg þér bregða er þér mun betra þagað. |
s-900
| En ekki þykir mér það hlægilegt þó að þeir sveinar hlæi að því að þú sitjir mjótt og gnúir saman lærum þínum.' |
s-901
| Þórarinn segir: ' Hafa skal heil ráð hvaðan sem koma' |
s-902
| sest niður og þagnar. |
s-903
| Þá mælti Þorgeir: ' Það mega allir sjá að gerð þessi er ómerkileg og heimskleg, að gera þrettán aura silfurs og eigi meira fyrir svo mikið mál.' |